Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Áfram Þróttur !!!!!

Nú er það spennandi. Kl. 17.15 mun Þróttur mæta Reyni í Sandgerði á þeirra heimavelli og spila um hvort meistaraflokkur karla komist aftur upp í úrvaldsdeild. Ég hef fulla trú á mínum strákum, þeir geta þetta. Strákar - bara taka þetta !!!


Rauðar skyrtur í dag

Fékk SMS frá Svíþjóð þar sem umheimurinn er hvattur til að vera í rauðum skyrtum í dag, föstudag 28. september, til stuðnings hugrökkum mótmælendum í Burma. Ég er í rauðu, vonandi fleiri.

En ótrúlega fyndið að herstjórnin skuli sjá flísina í auga fjölmiðlanna en ekki risatréið í eigin herforingjastjórn.  


mbl.is Herstjórn Myanmar kennir BBC um óróann í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum

Má ég biðja um meiri skatta. Umræðan um smánarleg kjör þeirra sem minnst hafa það í samfélaginu er virkilega mikilvæg og ekki síst hvernig við viljum bæta kjörinn. Þakka ég allar athugasemdirnar við síðustu bloggfærslu þar sem sitt sýnist hverjum. Öll sjónarmiðin eru þess virði að á þau sé hlustað og leiðir viðkomandi skoðaðar. 

Mín afstaða er að hafna leiðum sem ganga á sjálfsvirðingu þeirra sem fá aðstoð samfélagsins við sína tekjuöflun eða aðra aðstoð vegna skertrar getu. Aðalatriðið er að við virðum hvort annað, mismunandi langanir og þarfir. Mín afstaða gagnvart afsláttarkortum er mjög neikvæð því ég þekki ótal marga sem þola ekki að framvísa kortunum. Þá finnst mér skrýtið að einn eða fleiri þjóðfélagshópar eigi rétt á afslætti því það er tekið sem gefnu að viðkomandi sé fátækur. Hvað er sjálfsagt við það að fólk með langvinna sjúkdóma sé fátækt. Við eigum að greiða fólki þannig laun að það haldi sinni reisn og greiði t.d. í bíó eins og hver annar. Þá get ég illa sætt mig við góðgerðarhugmyndafræði sem þrífst vegna þess að sumum finnst svo gott að veita "aumingjans lífeyrisþegunum" eitthvað sem þeim vantar. Slík "charity" hugmyndafræði sem viðgengst í Bandaríkjunum á ekki heima í norrænu velferðarkerfi sem vill jafna kjör fólks.

Já miklu frekar vil ég biðja um meiri skatta. Er á sömu hugmyndafræði og Guðmundur Auðunsson vinur minn (sjá athugasemdir). Er hlynnt þrepaskiptu skattkerfi þannig að hægt sé að nýta skattkerfið til jöfnunar. Mér finnst raunar alveg fáránlegt að ég borgi sömu skattprósentu og þeir sem eru á mjög lágum launum, hvaðan sem þau koma. Ég vil að fólk gefi eftir getu og þiggi eftir þörfum. 


Loksins! Engan afslátt til öryrkja

Það er löngu tímabært að tekjur örorku- og ellilífeyrisþega verði þannig að hætt verði að skipta fólki upp í gjaldflokka. Mér finnst óþolandi að öryrkjar eigi að fá afslátt af hinu og þessu af því að þeir eru svo tekjulitlir. Auðvitað eiga öryrkjar og aldraðir að borga eins og aðrir fyrir almenna og opinbera þjónustu (undanskil heilbrigðisþjónustu sem á að vera ókeypis fyrir alla, eða ódýrari fyrir öryrkja sem þurfa mun meira á henni að halda) og hafa til þess tekjur eins og aðrir. Það er líka meira réttlæti í því gagnvart þeim hópi sem er á lægstu tekjunum, en geta ekki lagt fram skírteini um að þeir séu undir fátækramörkum. 

Tillögur Öryrkjabandalagsins eru verulega áhugaverðar ekki síst fyrir þær sakir að þær ná til alls lágtekjufólks í landinu. Ef þær ná fram að ganga og almannatryggingakerfið verði einfaldað eins og lagt er til, þá þurfum við líka að einfalda margt annað. Þvílík hreinsun og við hættum að láta öryrkja framvísa fátækraskírteinum til að fá skitinn afslátt sem oft er í því fólginn að færa peninga úr einum vasa í annan.


mbl.is Öryrkjar, lágtekjufólk og aldraðir fái að njóta skattalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak

Mikið er ég þakklát slökkviliðsfólkinu sem var á ferð í miðbænum til að taka út brunavarnir. Finnst þetta raunar mun mikilvægara en umgengnisherferð lögreglunnar sem ég ætla þó ekki að gagnrýna. Er ein af trilljón sem verð auðveldlega eldhrædd og fyrir okkur skiptir það mig miklu að eldvarnir séu í lagi. Takk ágæta slökkviliðsfólk!!! 
mbl.is Dauðagildrur fundust í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friður og FAAS

Góð helgi er á enda. Á föstudagskvöldið var ég gestakokkur í Friðarhúsinu og bauð upp á lifur með lauk og bláberjasósu, kartöflumús, salat og karrísteikt epli. Guðrún Bóasar kom með ljúffengt rótargrænmeti í hnetusósu. Um 70 manns komu í haustveisluna og var gerður góður rómur af matnum og ekki síður Svavari Knút sem spilaði og söng nokkur lög. Mér finnst þessir fjáröflunarkvöldverðir í Friðarhúsinu eitt að því skemmtilegra sem ég geri.  

Á laugardag var ég fundarstjóri á hátíðarfundi FAAS, Félags aðstandenda Alzheimerssjúklinga. Um 200 manns voru á fundinum þar sem boðið var upp á fjölmörg fræðandi erindi og ekki síður góða tónlist frá Kyrjunum og KK sem sló algerlega í gegn. 

Jonni, Jón Sigurðsson, varð sextugur í gær og fórum við í afmælisveislu mikla sem haldinn var í stúkunni í Laugardalsvelli. Eftir mat og skemmtun var dansað við undirleik hljómsveitar Sigga Jóns. Annað eins stuðband er varla til og ég finn það best nú á sunnudagskvöldi þegar lappirnar eru að drepa mig. 

Í kvöld fórum við fjölskyldan í mat til Ingu, Hectors og Evu Bjarkar. Þar var boðið upp dásamleg samskipti ásamt lambahrygg og ís og ávexti í eftirmat. Ég fékk að baða Evu Björk þannig að kvöldið var algerlega fullkomið.

Verkefni komandi viku eru allmörg. Á miðvikudagskvöld verður fundur Samfylkingarfélaginu í Reykjavík sem ber heitið "Þak yfir höfuðið - fyrir alla." Þar verð ég með erindi um stöðu mála í Reykjavík, Laufey Ólafsdóttir formaður Félags einstæðra foreldra mun halda erindi og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sérfræðingur í Félagsmálaráðuneytinu sem er starfsmaður Jóhönnunefndarinnar í húsnæðismálum. 


Fólk á móti geðfötluðum?

Ég er ásökuð um að saka fólk um fordóma gegn geðfötluðum. Mér dettur ekki í hug að nokkur sé á móti öðru fólki bara af því að það er með sjúkdóm. Þannig er lífið sem betur fer ekki. 

Deilan um byggingu sambýlis, eða húss með sex litlum einstaklingsíbúðum, snýst um hvort vegi þyngra grænt svæði eða búsetuþörf fólks sem lengi hefur verið án þeirra mannréttinda að eiga heimili, heldur hefur dvalist á stofnun. 

Ég met það fólk sem berst fyrir grænum svæðum, sú barátta er afar mikilvæg. Við sem erum í pólitík þurfum hinsvegar að skoða marga hagsmuni þegar kemur að ákvörðunum og getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir út frá einu sjónarmiði. Við þurfum að vega hvað vegur þyngst.

Ég hef stutt byggingu sambýlis í Laugardal af því að ég tel hagsmuni þeirra sem þurfa heimili á friðsælum stað vega þyngra en það svæði sem byggja á. Svæðið er í fyrsta lagi ekki grænt útivistarsvæði heldur smálóð milli annars sambýlis og skólagarða. Nýtt hús mun á engan hátt rýra skólagarðanna nú útivistarperluna Laugardal. Í fyrstu voru hugmyndir uppi um að byggja tvö hús á öðrum stað en frá því var fallið eftir samráð við íbúa. Studdi ég þá breytingu eftir að hafa hlustað á fólkið í dalnum. 

Ég skil hinsvegar áhyggjur íbúa af ýmsum þeim hugmyndum sem uppi eru um byggingar í Laugardal og held að það sé full ástæða til að staldra við. En að mínu mati þarf að velja hvað eigi að vernda og hvað ekki. Ég er ekki talsmaður malbiks, þó ég sé talsmaður þessa heimilis og annarra heimila sem veita fólki lágmarkslífsgæði.


VG og F gegn húsnæði fyrir geðfatlaða

Í Skipulagsráði í morgun var samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 (og  F-lista sem er með áheyrnarsetu) að byggja húsnæði fyrir 6 geðfatlaða einstaklinga á Holtavegi. Var þessi ákvörðun tekin þrátt fyrir mikil mótmæli íbúa enda töldu þeir sem að samþykktinni komu að uppbygging húsnæðis fyrir geðfatlaða væri það mikilvægasta sem við stæðum frammi fyrir. Þá stendur nýtt íbúðahús ekki á grænu svæði, heldur á lóð sem ekki hefur verið nýtt á neinn hátt. Nýtt hús mun ekki skerða skólagarðanna eins og sagt hefur verið, né taka af grænt svæði.  

Að sögn Svandísar Svarvarsdóttur réð það ákvörðun hennar og VG að um grænt svæði væri að ræða. Í reiði minni sé ég ekki neitt annað en um hreinan populisma sé að ræða gagnvart þeim hópi fólks sem hefur mótmælt. Besta svarið við  þeim mótmælum hefði verið að allar flokkar hefðu staðið saman að þessari samþykkt. VG og F gátu það ekki - heldur völdu stjórnarandstöðugírinn.  

Reykjavíkurborg var að taka við því verkefni frá ríkinu að tyggja 80 geðfötluðum einstaklingum búsetu. Ekki er ljóst hver afstaða VG og F verður þegar það þarf að byggja upp almennilegt húsnæði fyrir þennan hóp. Kannski þeim finnst bara best að kaupa gamalt svo ekki þurfi að hrófla við neinu. 

Ég er gjörsamlega miður mín yfir þessum vinnubrögðum og það að VG og F sjái ekki til framtíðar fyrir vinsældaþörf nútímans.


Sérúrræði eða almennt húsnæði

Fyrst og fremst þarf að gera stórátak í húsnæðismálum þannig að tekjulágt fólk og einstæðir foreldrar þurfi ekki að búa í sérúrræðum. Sérúrræði á húsnæðismarkaði eiga ekki að verða almenn og húsnæðismarkaðurinn á að þjóna fólki með mismunandi mikla peninga á milli handanna. Ég treysti því að nefndin hennar Jóhönnu muni skila tillögum sem munu skipta sköpum fyrir þá sem ekki geta veitt sér þær grundvallarþarfir í dag að hafa þak yfir höfuðið. Þenslan og ríkidæmi hinna ríku eru búin að sprengja alla skala.

En flott hjá Jóhönnu að taka af skarið gagnvart Félagi einstæðra foreldra. Neyðin er mikil hjá mörgum, ekki síst þeim sem þurfa að reka fjölskyldu á einum launum. Það er nánast orðið ómögulegt.


mbl.is Strax gripið til aðgerða til að leysa neyðarástand í húsnæðismálum einstæðra foreldra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband