Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ég styð ríkisstjórnina!

Svona er lífið undarlegt. Ég hef ekkert bloggað í 16 daga og síðasta færsla var undir fyrirsögninni "Ég styð Framsókn". Ekki var þessari kaldhæðni ætlað að lifa svona lengi, en einhverra hluta vegna þá lagðist ég í dvala gagnvart ýmsum verkum þ.á m. bloggi. 

En ég styð ríkisstjórnina og ætla að segja það hér með upphátt. Það verður þó að viðurkennast að ég hef ég blendnar tilfinningar þegar ég lýsi yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, enda er það í sjálfu sér erfitt þegar litið er til fortíðar.  Ég ætla hins vegar ekki að líta til ákvarðana og forgangsröðunar fortíðarinnar sem Samfylkingin hafði enga  möguleika á að stjórna.  Ég trúi því að  Samfylkingin muni ná fram auknum jöfnuði í samfélaginu og átaki til að bæta hag barnafjölskyldna, eldri borgara og annarra sem þurfa að reiða sig á almannaþjónustu og almannatrygginga. Þess vegna styð ég ríkisstjórnina því ég hef trú á okkar fólki. 

Læt fylgja með uppskrift að fiskisúpu sem lætur fólki líða vel. 

 

Fiskisúpa Bjarkar    

 

  • 2 msk. smjör
  • 2 sax. laukar
  • 1 sax. blaðlaukur
  • 1 knippi söxuð steinselja 
  • 4 dl. fiskikraftur (1 teningur)
  • 2 dsl. mysa / hvítvín
  • Safi af kræklingum
  • 1 dós tómatar
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1 tsk. jurtasalt
  • ½ tsk. cyennepipar
  • 4 msk. sax dill

 

  • 1 dós kræklingar
  • 1 lítill lúðubiti / hvítur fiskur
  • 250gr. rækjur

 

Laukur svissaður í smjöri og síðan er allt annað en fiskmetið látið krauma í 10-15 mín. Þá er fiskmetið sett út í og súpan borinn fram um leið og suða hefur komið upp. Ekki sjóða súpuna eftir að fiskurinn er komin út í. Lúða má þó aðeins sjóða í örfáar mínútur.

 


Ég styð Framsókn

Ég er eiginlega alveg miður mín að hafa ekki kosið Framsóknarflokkinn á laugardaginn. Ég er alveg til í að lýsa opinberlega yfir stuðningi við Framsókn og fá aðra 10 með mér. Mér skilst nefnilega að ef Framsókn hefði fengið 11 fleiri atkvæði þá hefði ríkisstjórnin fallið.

Ég vil skipta - og því er ég til í að styða Framsókn.


mbl.is Framhald núverandi stjórnarsamstarfs feigðarflan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Missir af Merði

Tel það missi fyrir Alþingi Íslendinga að Mörður skildi detta út af þingi og að Samfylkingin skuli hafa tapað 2 þingmönnum. Hinsvegar hef ég engar áhyggjur af Merði þar sem hann mun hafa nóg fyrir stafni sem varaþingmaður og íslenskufræðingur.

Þá þykir mér miður hvað kjörsókn var dræm og held að það hafi haft áhrif á okkar kjörfylgi. Sjálf festist ég í umferðarteppu eftir að hafa notið risessunnar og föður hennar. Eftir á talaði ég um samsæri Listahátíðar gegn lýðræðinu og hélt um tíma að umferðaröngþeitið kringum þau feðgin hefði tekið þann tíma frá fólki sem það annars hefði notað til að fara á kjörstað. En hvað olli, veit ég ekki. Ég er ekki sátt ef Sjálfstæðismenn og Framsóknarflokkur ætli sér að sitja áfram. 


mbl.is Mörður Árnason: „Hundfúll"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja ríkisstjórn fyrir mitt fólk - takk!

Það þarf nýja ríkisstjórn til að gera stórátak í málefnum aldraðra sem misst hafa heilsuna, Jón frændi sem býr á fjórbýli á Hrafnistu þarf á því að halda. Hugsum um hag hans og 900 annarra sem búa í þvingaðri sambúð á hjúkrunarheimilum. Frænka mín þurfti að reiða sig á matargjafir Mæðrastyrksnefndar í 2 mánuði eftir að hún þurfti ný gleraugu. Hennar tekjur eru einungis frá almannatryggingum en ekki lífeyrissjóðum eða eftirlaunagreiðslum því hún ól upp mörg börn og gat unnið takmarkað utan heimilis. Vinkona mín sem er öryrki hefur ekki farið til tannlæknis í mörg ár. 5000 börn eru fátæk á Íslandi. Þriðjungur aldaðra lifir undir fátækramörkum.

Svona er því miður hægt að telja upp á íslandi árið 2006, eftir 12 ára ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Mér finnst að fólk eigi ekki að kjósa um hag eigin buddu, ef það tilheyrir þeim hópi sem hefur það mjög gott, fólk á að kjósa út frá hag þeirra sem minnst bera úr bítum.

Ég vil að við kjósum ríkisstjórn jafnaðar, velferðar og friðar.

Að lokum minni ég ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því 2003  „Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skipa Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja frelsun Íraks."


Ný ríkisstjórn fyrir karlinn

Karlinn minn er 60 ára í dag og hann biður bara um tvennt í afmælisgjöf

  • Nýja ríkisstjórn
  • Neyðarhjálp til Palestínu

Ég ætla að gefa honum hvoru tveggja því hann á allt gott skilið. Ætla að leggja inn á neyðarsöfnunarreikning Félagsins Ísland Palestína og síðan vinn ég að því hörðum höndum að koma ríkisstjórninni frá. Vil fá ríkisstjórn sem leggur áherslu á velferð, frið og réttlæti til handa fólki og umhverfi.

Neyðarsöfnunin hefur reikning 0542-26-6990 og kennitölu 520188-1349

 


13 mánuðir frá síðasta fundi fjölskyldunefndar

Sendi Birna Inga Hrafnssyni eftirfarandi bréf núna áðan.

Björn Ingi Hrafnsson,formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar  

Ósk um fund í fjölskyldunefnd  

Ágæti formaður. Með þessu bréfi vil ég óska eftir fundi í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar – og ekki seinna en vænna því aðeins fimm dagar eru þar til henni verður skipt út. Mér reiknast til að nú séu 13 mánuðir frá því að fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar hélt fund síðast eða 6. apríl 2006. Er það undarlegt eftir allar hinar stóryrtu yfirlýsingar um tímamótavinnu hennar.

Við í Samfylkingunni héldum þó áfram að sinna þessum brýnu málaflokkum. Á síðustu mánuðum hafa á vettvangi flokksins verið útfærðar hugmyndir sem hafa það markmið að bæta hag barnafjölskyldna og kynntar hafa verið í 60 atriða aðgerðaráætlun undir yfirskriftinni – Unga Ísland. Undirrituð sem er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í fjölskyldunefndinni hef mikinn hug á að deila þessum hugmyndum með öðrum nefndarmönnum, kanna hug þeirra til hugmyndanna og afla stuðnings við að koma þeim til framkvæmda.  Gott væri að þessi fundur gæti orðið við fyrsta tækifæri. 

Kær kveðja, Björk Vilhelmsdóttir  

P.s. Það vekur það athygli mína að búið er að loka vefsvæði fjölskyldunefndarinnar á www.fjolskylda.is og hvergi á vefnum er að finna fundargerðir né annað efni sem nefndir hefur tekið saman.  

Hjálögð er stefna Samfylkingarinnar í málefnum barna og unglinga – Unga Ísland. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rósaganga án þyrna

Ég hef aldrei tekið þátt í jafn skemmtilegri kosningabaráttu og nú. Ef mín tilfinning segir eitthvað til um væntanleg úrslit þá er Samfylkingin með svona 60+ (ég er ekki að tala um Ellert Schram og félaga) heldur hlutfall okkar af fylginu.

Ég hef undanfarið gengið frá einni dyr í aðra (ekki hús úr húsi) þar sem ég hef verið þar sem láglaunafólkið býr og fólkið sem þarf að reiða sig á lífeyri almannatrygginga. Þeir sem finna hversu erfitt það er að lifa á litlu þegar ríkissjóður hefur tekið hluta sinn í tekjuskatt vilja skipta um ríkisstjórn, þeir vilja hjálpa okkur að koma á auknum jöfnuði þar sem skattabyrði þeirra sem lifa á loftinu verði afnumin.

Á sama tíma og fólk vill breytingar á Alþingi, í stjórnarráðinu með jöfnunar- og velferðaráhrifum þá er það líka að tala um frábærar sjónvarpsauglýsingar Samfylkingarinnar; Karíus og Baktus, biðlistar, íslensk tradisjón og fleira er í boði. Ég hef enn ekkert séð, enda vel ég umfram allt annað þessa daga, að fá mér rósagöngu - því hún er algerlega án þyrna. 

Áfram nú – upp um 2% á dag !!!

 


Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband