Leita í fréttum mbl.is

Fólk á móti geðfötluðum?

Ég er ásökuð um að saka fólk um fordóma gegn geðfötluðum. Mér dettur ekki í hug að nokkur sé á móti öðru fólki bara af því að það er með sjúkdóm. Þannig er lífið sem betur fer ekki. 

Deilan um byggingu sambýlis, eða húss með sex litlum einstaklingsíbúðum, snýst um hvort vegi þyngra grænt svæði eða búsetuþörf fólks sem lengi hefur verið án þeirra mannréttinda að eiga heimili, heldur hefur dvalist á stofnun. 

Ég met það fólk sem berst fyrir grænum svæðum, sú barátta er afar mikilvæg. Við sem erum í pólitík þurfum hinsvegar að skoða marga hagsmuni þegar kemur að ákvörðunum og getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir út frá einu sjónarmiði. Við þurfum að vega hvað vegur þyngst.

Ég hef stutt byggingu sambýlis í Laugardal af því að ég tel hagsmuni þeirra sem þurfa heimili á friðsælum stað vega þyngra en það svæði sem byggja á. Svæðið er í fyrsta lagi ekki grænt útivistarsvæði heldur smálóð milli annars sambýlis og skólagarða. Nýtt hús mun á engan hátt rýra skólagarðanna nú útivistarperluna Laugardal. Í fyrstu voru hugmyndir uppi um að byggja tvö hús á öðrum stað en frá því var fallið eftir samráð við íbúa. Studdi ég þá breytingu eftir að hafa hlustað á fólkið í dalnum. 

Ég skil hinsvegar áhyggjur íbúa af ýmsum þeim hugmyndum sem uppi eru um byggingar í Laugardal og held að það sé full ástæða til að staldra við. En að mínu mati þarf að velja hvað eigi að vernda og hvað ekki. Ég er ekki talsmaður malbiks, þó ég sé talsmaður þessa heimilis og annarra heimila sem veita fólki lágmarkslífsgæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Björk,

Það er mikill léttir að heyra að skiljir áhyggjur íbúa af byggingum í Laugardal og að það sé full ástæða til að staldra við.

Hvar á að setja mörkin. Í Reykjavík er fjöldinn allur af samtökum sem eiga skjólstæðinga sem eiga undir högg að sækja. Eru þá engin mörk ef góðgerðar- samtök sækja um lóð í Laugardal. Hvernig ætlar þú að afgreiða þær umsóknir?

Mér þykir það leitt að þú hefur ávallt kosið að stilla þessu máli um svæði IV sem Laugardalur versus Geðfatlaðir gegn þinni betri vitund, og það sem verra er þá hafa margir gleypt við þeim málflutningi þínum og talið okkur í Laugardalnum vera sérstaklega fordómafull og andsnúin geðfötluðum. Þú hefur fylgst með okkar málflutningi og veist upp á hár að við höfum unnið að þvi að vernda græn svæði svæði. Í hverfunum kringum Laugardalinn eru á á fjórða tug sambýla og meðferðarstofnana og sambúðin hefur gengið vel. Ástæðan fyrir þessum fjölda er án ef sú að það er gott að búa í nálægð við Laugardalinn.

Mér þykir líka leitt að sjá aðförina að Svandísi Svavarsdóttur. Hún hlustaði á íbúa, kynnti sér málið og kom með sjálfstæða skoðun á þessu máli, kaus að fylgja ekki þessari þverpólitískri línu. Síðan hvenær eiga stjórnmálamenn ekki að fylgja sinni eigin sannfæringu?

Ég vona að þessi umræða um Laugardalinn komi til að vekja fólk og þá sérstaklega borgarfulltrúa um hvert stefnir með Laugardalinn. Eigum við íbúar sem ekki erum sáttir við þetta að sitja heima í fýlu, eða eigum við að henda okkur út í slaginn og uppskera það að vera með fordóma fyrir hinu og þessu, á móti framförum, er það ekki tískuorðið í dag fyrir þá sem dirfast að mótmæla?

andrea (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 19:58

2 identicon

Friðsemdin er nú ekki meiri en svo á þessu græna frímerki að það stendur við gafl tveggja stórra fjölbylishúsa með 73 heimilum. Um kvöld og helgar æða vélhjól eftir göngustígum meðfram húsunum og raska næturró íbúanna. Yfir vetrartímann glymur skólabjallan með reglulegu millibili og hávær leikur barna í frímínútum ómar inn um gluggana. Um helgar undanfarin sumur hafa íbúar "notið" endurgjaldslaust háværrar tónlistar úr Fjölskyldugarðinum. Þetta er allt við húsgaflinn á þessum líka friðsæla stað. Á daginn yfir sumartímann er svo stöðugur straumur barna við störf í vinsælustu skólagörðum borgarinnar.

Frá yfir 70% þessara 73 heimila bárust andmæli við deiliskipulagstillögunni. Hvernig geta 6 manns leyft sér að horfa framhjá því? Hversu margir þessara 6 einstaklinga hafa yfirhöfuð komið á þennan stað? Samráð var ekkert við þessi 73 heimili sem þó verða næstu nágrannar. Þetta eru líka heimili og á þeim býr líka fólk sem hefur þörf fyrir lífsgæði á við hvern annan.

Hvað gerir svæði að útivistarsvæði? Þarf einhver pólitíkus að ákveða hvar fólk má vera formlega úti við og setja embættisstimpil þar við? Telst svæði því aðeins vera í notkun að eitthvað standi á því? Felst notkun ekki í því að fólk almennt geri sér ferð á svæði og iðki holl hugðarefni þar? Er það ekki útivistarsvæði nema embættismenn borgarinnar feli ákveðnum aðilum að girða það af og selja fólki aðgang með ýmsum skilyrðum? Nú síðast í gærkvöldi vorum við fjölskyldan úti á þessu græna svæði með stjörnukíki því skuggamyndun trjána skapaði vænlegri skilyrði í en eru í ljósmenguðum blokkargarðinum okkar.

Ég vil bara benda sexmenningunum á Öskjuhlíðina sem enn er hægt að ráðstafa á manneskjulegan hátt í stað þess að hrúga þar niður umferðafrekum stofnunum. Ég bendi á Elliðaárdalinn eins og hann leggur sig, hann er jú ekkert nýttur, bara borgarstjóri og nokkrir kallar með flugu í höfðinu sem renna þar fyrir lax hluta úr ári. Ég bendi á allt ónýtta svæðið við Kjarvalsstaði, Klambratúnið. Nú, eða Hallargarðinn við Fríkirkjuveg með róandi áhrif tjarnarinnar fyrir augum.



Ólöf I. Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 22:11

3 identicon

Spurningar sem þarf að svara: 

Var staðan sú að byggt yrði sambýli þarna eða það yrði ekki byggt?

Er lóðaskortur í borginni?

Var  ekki hægt að halda í túnblettinn (en ég mótmæli harðlega fullyrðingu þinni um að hann sé ekkert nýttur) og byggja sómasamlegt húsnæði geðfatlaða nálægt grænu svæði?

Er það ekki hundalógík að segja mikilvægt fyrir geðfatlaða að búa við opin græn svæði en byggja á slíku svæði fyrir þá og þar með fækka opnum grænum svæðum?

hildur (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 09:26

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Geðfatlaðir eiga ekkert endilega að búa við græn svæði enda búa flestir bara inni á venjulegum götum líkt og aðrir. Ég vil ekki byggja neitt í Laugardal meira en orðið er hvað sem allri pólitík líður. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.9.2007 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband