Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Betra er að þiggja en gefa

Þetta á við um bloggið. Hef verið að vafra í netheimum nú um stund og sé hvað margir hafa mikið að gefa á þessum miðli. Gef mér allt of sjaldan tíma til að vafra á þennan hátt, en finnst það stórmerkilegt. Fólk hefur frá svo mörgu og misjöfnu að segja og það er alveg dásamlegt. Fjölbreytileiki mannlífsins kemur heim í stofu í hinum ýmsu myndum. Ég nenni síst að lesa það sem skrifað er um pólitík (nema Össur) þann pakka klára ég á daginn. Mér finnst gott að lesa pistla þeirra sem segja frá sínum erfiðleikum og gagnrýna kerfið á sanngjarnan hátt, kerfið sem ég ber ábyrgð á. Það er eitthvað sem ég þarf að taka mark á.

En í kvöld stóð eitt upp úr. Dönsku pistlarnir hans Hallgríms Helgasonar: "Kunsten at være islænding"og "Komplottet mod Danmark" Alger snilld en kannski eru allir búnir að lesa þetta, en ég er um mánuð á eftir tímanum. Hallgrímur sannar að hann skilur íslensku þjóðarsálina þegar hann segir "Vi hader de høje priser, men elsker at bruge penge. Vi hader stormen, men elsker den friske luft."

http://www.hallgrimur.is/?ew_news_onlyarea=middle2&ew_news_onlyposition=16&cat_id=48027&ew_16_a_id=293327


Er ég að verða gömul?

Bara bylting hjá Mogganum. Mér brá óneitanlega þegar ég opnaði mbl.is í morgun, engar smá breytingar á ferð. Mín fyrstu viðbrögð voru neikvæð og fann þá ég að ég væri að eldast þar sem ég þyldi breytingar og byltingar verr en áður. Ég sem hef hin síðari ár talið að ég væri bara rétt komin af unglingsaldri. Raunar var það annað um helgina sem fékk mig til að minna mig á hærri aldur en ég hugði. Var að skrifa afmæliskort til bróðurdóttur minnar sem er yngst af systkinabörnum mínum. Hún Gunnhildur var orðin 12 ára, samt minnsta og yngsta frænkan mín. Ég get því ekki lengur verið unglingur sjálf.

En aftur að upphafi bloggsins, er komin langt út fyrir efnið. Var lengi að finna hvernig ég ætti að senda inn aðsenda grein, en fann það að lokum með því að lesa leiðbeiningarnar. Þær voru góðar! Ég vil því hrósa mbl.is fyrir byltinguna sem er vafalítið til bóta, þó það taki okkur eldri borgarana smá tíma að venjast þeim.


mbl.is Sjónvarpsfréttatímar á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveinn útilokaður frá Gaza

Sveinn Rúnar eyddi öllum deginum í dag við Erez hliðið að Gazaströndinni en fékk ekki að fara inn ásamt samferðamanni sínum Ben Alofs heimilislækni í Wales. Þeir hafa verið í Palestínu í 2 vikur að vinna með læknishjálparnefndunum á færanlegum sjúkrastöðvum og höfðu undirbúið í 8 daga að komast inn á Gaza. Þrátt fyrir bréf upp á vasann frá utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og Lútherska heimssambandinu þess efnis að hann væri að ferðast með vitneskju þeirra og vilja, þá hleypa þeir Sveini ekki inn, enda gæti hann sagt frá þeim hörmunum sem eru í risastóra fangelsinu sem 1.5 milljón manns eru í.

Lesendur þekkja Svein og vita að hann er einungis í þeim erindagjörðum að aðstoða eins og möguleiki er á og hitta kollega sína og sýna þeim stuðning við erfiðar aðstæður. Er þetta ómetanlegt þeim sem lifa við hörmungarnar og nauðsynlegt til að geta safnað fjármunum sem síðar koma að gagni.

Ben Alofs er hollenskur læknir búsettur og starfandi í Wales. Hann starfaði í nokkur ár í flóttamannabúðum í Líbanon og síðar á Al Arab Hospital á Gaza. Ég ferðaðist með þeim félögum í Palestínu og á Gaza fyrir 3 árum og ég get ekki sætt mig við að Ísraelska herlögreglan banni þeim inngöngu. Þeir ætla að reyna enn frekar á morgun. Nú er bara að vona það besta. Allir að senda þeim baráttukveðjur!


**** fyrir For a Minor Reflection

Ég er alveg óþolandi stolt mamma. Verð að benda lesendum á plötudóminn um frumraun For a Minor Reflection sem birtist á síðu 79 í Morgunblaðinu í dag, sunnudag. Mínir menn fá 4 stjörnur og alveg frábæra umfjöllun. Til að auðvelda lesendum lífið birti ég bara dóminn.

TÓNLIST - Geisladiskur

Heit sveit

For a Minor Reflection – Reistu þig við, sólin er komin á loft... stjörnugjöf: &sstar;{sstar}&sstar;{sstar}

HLJÓMSVEITIN For a Minor Reflection var stofnuð árið 2006 og hóf feril sinn á því að spila blús en fljótlega fór sveitin að feta nýja leið í átt að tilraunaglöðu rokki og naumhyggju. Í dag er sveitin skipuð þeim Kjartani Hólm (gítar), Guðfinni Sveinssyni (gítar), Elvari J. Guðmundssyni (bassi) og Jóhannesi Ólfassyni (trommur). Á matseðlinum er ósungið en hressilegt síðrokk / nýskógláp (neo-shoegazing) í anda hljómsveita eins og Godspeed You Black Emperor!, Explosions in the Sky, Sigur Rós og jafnvel Isis.

For a Minor Reflection er þrátt fyrir ungan aldur þrælgóð hljómsveit, svo góð að undrum sætir svo ekki sé meira sagt. Þeir drengir eru afar liprir hljóðfæraleikarar sem verður gaman að fylgjast með þegar fram líða stundir. Sveitin er kraftmikil og hefur náð góðum tökum á því formi tónlistar sem hún er að fást við, svo góðum að söngleysið kemur ekki að sök nema síður sé. Sex lög prýða plötuna sem er um það bil klukkutíma löng en það er einmitt einkenni síðrokksins að semja löng og epísk lög. Allt gengur þetta þó upp hjá For a Minor Reflection, platan heldur athygli hlustandans frá byrjun til enda, frá upphafslaginu Kyrrð að því síðasta...sólin er sest og dapurleikinn tekinn við (bless).

Það er ekki hægt að setja út á margt þegar þessari plötu er rennt í gegn enda algjör óþarfi, hún stendur fyrir sínu. Reistu þig við, sólin er komin á loft...er grasrótarútgáfa af fremstu gerð og eitthvað sem svo sannarlega er þess virði að leita upp í betri búðum borgarinnar.

Jóhann Ágúst Jóhannsson


Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband