Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Baráttukonan Bryndís

Frábært hjá Bryndísi Ísfold fulltrúa Samfylkingarinnar í Mannréttindanefnd að setja þetta mál á dagskrá og fá samþykkt að farið verði í aðgerðir til að sporna gegn nauðgunum í og við skemmtistaði borgarinnar. Þetta er þó ekkert flokkspólitískt mál, en það þarf öflugan feminísta til að berjast áfram í þessum málaflokki þannig að það skili árangri. Ég er stolt að minni konu.
mbl.is Sporna á við kynferðisofbeldi á skemmtistöðum borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðiskostnaður eldri borgara

Í velferðarráði í gær lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram fyrirspurnir um byggingu nýrra íbúða í þágu eldra borgara og hvert væntanlegt verð þeirra verði. Það er nokkuð ljóst að eldra fólk sem hefur einungis tekjur frá almannatryggingum, tæpar 127 þús. á mánuði, og eða með litlar tekjur umfram það mun ekki geta eignast íbúðir á uppsprengdu verði né leigt á þeim kjörum sem gerast á almennum leigumarkaði. Því er afar brýnt að mæta þörf þeirra sem eru verst settir fjárhagslega þó þannig að þeir geti nýtt sér almennt húsnæði sem í boði.  Við höfum rökstuddar áhyggjur af því að nýjar þjónustuíbúðir verði mjög mörgum eldri borgurum allt of dýrar, bæði eignaríbúðirnar og leiguíbúðirnar. Þá er líklegt að leiguíbúðirnar verði fáar og muni ekki anna eftirspurn.Til að fá nauðsynlegar upplýsingar upp á borðið lögðum við fram eftirfarandi fyrirspurn á fundi ráðsins í gær:  Í nýjum lykiltölum Velferðarsviðs kemur fram að 370 eldri borgarar eru nú á biðlista eftir þjónustuíbúð. Því er spurt:
  1. Hversu margar þjónustuíbúðir eru nú í byggingu í Reykjavík ?
  2. Hversu stór hluti fyrirhugaðs húsnæðis verður
    1. eignaríbúðir
                                                              i.      Fjöldi íbúða eftir stærð                                                            ii.      Áætlað verð íbúða
    1. leiguíbúðir
                                                              i.      Fjöldi íbúða eftir stærð                                                            ii.      áætluð leigufjárhæð

Börn í boði Eimskips

Hingað til hefur verið sátt um að gefa börnum jöfn tækfæri hvað varðar menntun. Nú á að rjúfa þá sátt og gefa fyrirtækjum tækifæri til að greiða sérstaklega fyrir menntun barna starfsmanna sinna. Sum börn munu því menntast í boði stórfyrirtækja og einangrast í forréttindaheimi og þröngsýni. Þetta er hryllileg tilhugsun.

Það var merkilegt að heyra umfjöllum um einkavæðingu leikskóla í þættinum Ísland í dag nú í kvöld. Þáttastjórnendur sem greinilega voru jákvæðir gagnvart hugmyndinni töluðu við fólk úr atvinnulífinu sem gat hugsað sér að stofna leikskóla í tengslum við sín fyrirtæki. Formaður leikskólaráðs, Þorbjörg Helga, var hin ánægðasta með þennan möguleika en Sigrún Elsa borgarfulltrúi okkar Samfylkingarinnar hélt sönsum í þessari lofræðu um möguleika einkaframtaksins.

Ég er ekki á móti því að sjálfseignarstofnanir reki leikskóla eins og lengi hefur tíðkast, enda er það gert á grundvelli menntastefnu og reglna sem eru þær sömu fyrir alla leikskóla Reykjavíkur. Þannig hefur verið tryggð fjölbreytni og foreldrar og börn með sérstakar óskir í uppeldismálum hafa fengið val. Mikil áhersla hefur verið lögð í uppbyggingu og innra starf leikskólanna þann tíma sem Reykjavíkurlistinn réð ríkjum í borginni. Nú eru leikskólarnir okkar flaggskip og leikskólakennarar víða að koma hingað í námsferðir og ekki síður þeir sem vinna að stefnumótun í þessum málaflokki.

Ef Reykjavíkurborg ætlar nú að færa fyrirtækjunum rekstur leikskóla er verið að mismuna börnum gróflega. Við vitum að þau fyrirtæki sem hafa mikinn auð myndu greiða niður þessa þjónustu fyrir sitt starfsfólk. Börn þess starfsfólk myndi hugsanlega njóta góðs af, en ekki þau börn sem myndu áfram vera í borgarreknum leikskólum. Hvort Reykjavík geti keppt við stórkapitalið má efast. 


Góðir grannar

Á unglingsárum mínum á Blönduósi þotti fínt að líta niður á Skagstrendinga og ég hef rökstuddan grun um að því hafi verið öfugt farið á Skagaströnd. Þannig var hrepparígurinn í þá daga milli þessara tveggja kaupstaða í Austur Húnavatnssýslu.

Seinna komst ég að því að Skagstrendingar eru ekkert ólíkir okkur Blöndósingum, þó mun fleiri þar hafi migið í saltan sjó, enda fiskveiðar þeirra lifibrauð.

Ég óska Skagstrendingum til hamingju með nýja nafnið á sveitarfélaginu - nú loks eru þeir í raun réttnefndir.


mbl.is Nafni Höfðahrepps breytt í Skagaströnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nágrannalýðræðið of mikið?

Við Reykvíkingar erum alveg búin að tapa okkur í eigin einstaklingshyggju sem er að koma alvarlega niður á meðbræðrum okkar. Kaffistofa Samhjálpar er skjól fyrir tugi einstaklinga á hverjum degi og hefur ekki verið til vandræða á Hverfisgötunni hingað til - nema síður sé. Það er því með ólíkindum að fólk vilji ekki hafa þessa starfsemi í nálægð við sig og það komi í veg fyrir að Reykjavíkurborg og Samhjálp geti keypt nýtt húsnæði undir þessa nauðsynlegu starfsemi. 

Það hefur verið reynt í a.m.k. tvö ár að finna nýtt húsnæði en ekkert gengið. Ótal hús hafa verið skoðuð en ekkert gengið í að ná samningum um kaup. Ég held að nágrannalýðræðið sé orðið of mikið. 


mbl.is Kaffistofu Samhjálpar lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berjablámi

Berjabláminn er allsráðandi á heimilinu þessa stundina. Við Sveinn skiptumst á að útbúa saft og sultur úr þeim berjum sem við höfum tínt síðustu daga á Seyðisfirði og á Reykjanesi. Sveinn fór á Seyðisfjörð og týndi það kynstrin öll af aðalbláberjum en borgarfulltrúin fór í land Reykjavíkur nánar tiltekið í Reykjanesfólksvang og náði þar í talsvert af bláberjum og krækiberjum. 

Nú hafa vísindamenn komist að því að bláberin séu það hollasta sem maður lætur ofan í sig. Þau eru ekki bara holl heldur afskaplega góð afsökun til að fá sér rjóma og sykur. Ég held að vísindin hafi litið fram hjá þessum aukaefnum sem oftast fylgja bláberjunum þegar þau rata inn fyrir minn munn.

Jæja, nú þarf ég að klára. Á morgun er borgarstjórnarfundur þar sem tekist verður á um hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar sem við Reykvíkingar eigum sameiginlega. Þá eru einnig á dagskrá löggæslumálin sem við í Samfylkingunni höfum látið til okkar taka og eins manneklumálin. Af nógu er að taka. 


Forgangur: 1. í umferðinni 2. eldra fólks

  1. Strætó þarf meiri forgang í umferðinni því hvað eykur aðdráttarafl vagnanna meira en þegar þeir bruna fram úr einkabílnum á forgangsakreinum. Þetta gengur vel víðast hvar erlendis og á Miklubrautinni og Grensásvegi, en því miður gengur ekki nógu vel með nýja forgangsakrein í Lækjargötu. Hef ég beint því til minna þingkvenna að taka upp ákvæði í umferðarlögum sem skilgreinir forgangsakreinar og bannar almenna umferð á þeim. Þá er hægt að taka hart á þeim sem leyfa sér að keyra á strætóakreinum á sínum einkabílum.  Í gær varð ég vitni að einum feitum kalli á svörtum fínum jeppa keyra á akreininni og valda hættu.  Stundum get ég þakkað almættinu fyrir að stöðva mig þegar ég verð vitni að svona tillitsleysi. Það er hinsvegar önnur saga en ég læt ekkert stöðva mig þegar ungir hressir töffarar leggja í stæði fyrir fatlaða. Þeir fá að heyra það frá mér. 
  2. Nú fær unga fólkið okkar aftur tækifæri til að standa upp fyrir eldra fólki og í því felst ekki svo lítil menntun fyrir skólafólkið sem nú fær ókeypis í strætó. Menntun er að þroskast sem mannvera - að mennskast - og er þetta ágætur liður í því. Tók strætó í gær og fyrradag og í báðum tilfellum var nokkuð margt í vögnunum en ég fékk sæti. Mér finnst strætó góður fararmáti og sérstaklega er gaman að ferðast með strætó þegar hann er fullur. Því fleira fólk, því meira mannlíf til að njóta.

mbl.is Fullt í strætó á morgnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"jafnvel kældur bjór"

Það var gaman á borgarráðsfundi í dag að sjá bréfið sem borgarstjóri sendi ÁTVR þar sem hann fer fram á að Vínbúðin í Austurstræti hætti að selja bjór í stykkjatali og kælt áfengi. Skemmtilegt finnst mér orðalagið  þar sem borgarstjóri lýsir fyrir áhyggjum sínum þess efnis "að bjór sé seldur í stykkjatali og að jafnvel sé boðið upp á kældan bjór og annað áfengi í stykkjatali".

Í svari ÁTVR kom fram að hætt hafi verið sölu á kældum drykkjum en ekki hafi verið hætt að selja bjór í stykkjatali. Þá lýsir ÁTVR sig reiðubúna að flytja vínbúðina um set í miðborginni og óskar aðstoðar borgaryfirvalda við leit að nýju húsnæði.

Vegna svar ÁTVR mátti ég til með að spyrja tveggja spurninga í borgarráði:

  1. Hyggst borgarstjóri aðstoða ÁTVR við leit að nýjum stað undir vínbúð?
  2. Mun borgarstjóri beita sér frekar fyrir því að bjór verði ekki seldur í stykkjatali?

Ég er hinsvegar sammála borgarstjóra í því að umgengni og drykkja í miðborginni sé áhyggjuefni. Við eigum að taka það mál alvarlega og hjálpa þeim sem eru orðnir "heimilisfastir" á Austurvelli í að eignast raunverulegt heimili. Þá eigum við að fá veitingaraðila til liðs við okkur til að bæta umgengni alla. Þessu vil ég taka á, en er til í að fá kælda hvítvín hjá ÁTVR þegar ég á von á góðum gestum í fiskiveislu heima.


Algert samráðsleysi

Í borgarráði í morgun var tekist á um vinnubrögð borgarstjóra við niðurlagningu Framkvæmdasviðs borgarinnar og stofnun Eignasjóðs. Við fulltrúar Samfylkingarinnar bókuðum enda alvarlegt mál þegar starfsfólk og þeir sem sitja fyrir hönd borgarbúa í viðkomandi fagráðum fá fyrst að heyra um það í fjölmiðlum. Það er hinsvegar staðreynd sem ekki verður litið framhjá.

Þegar við kvörtuðum undan samráðsleysi var svarið: Hvað, samráðið á eftir að eiga sér stað í Stjórnkerfisnefnd.

Orðhengilsháttur er svar mitt við því þegar einhver kallar það samráð að kynna öðrum sem þegar er búið að ákveða og niðurnjörva. Enda eru borgaryfirvöld (einungis meirihlutinn) að fara halda upp á breytingarnar hér í dag, þrátt fyrir allt "samráðið" sem á eftir að eiga sér stað.

 Bókun okkar í borgarráði:

Fulltrúar Samfylkingar í borgaráði taka ekki efnislega afstöðu til fyrirliggjandi tillagna enda þau fyrst nú kynnt í borgarráði. Jákvætt er að málið fái umfjöllun í stjórnkerfisnefnd eins og samþykktir borgarinnar gera ráð fyrir. Hins vegar eru vinnubrögð borgarstjóra í þessu máli ámæliverð. Kom hann fram í fjölmiðlum með yfirlýsingar um að leggja niður Framkvæmdasvið borgarinnar áður en starfsfólk og fulltrúar í viðkomandi fagnefndum fengu að heyra af þessum tillögum. Með þessu var borgarstjóri að skapa óþarfa óvissu fyrir þann fjölda starfsmanna sem hjá sviðinu starfar.
mbl.is Tillga um stofnun Eignajóðs Reykjavíkurborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fámennisvald

Það merkilega við þennan dóm er áfellisdómurinn yfir málsmeðferðinni þar sem fjórir sérfræðingar í Læknaráði voru samstarfsmenn læknanna sem voru ákærðir vegna læknamistaka. Með þessu var ekki tryggt hlutleysi þeirra sem dæmdu. 

Þessi dómur Mannréttindadómstólsins á væntanlega eftir að hafa mikil áhrif í okkar fámenna landi, þar sem erfitt getur verið að fá sérfræðinga í dómsmál sem eru alls ótengdir öðrum sérfræðingum sem eru til umfjöllunar. Við þurfum a.m.k. að vanda okkur mun betur en hingað til hefur verið gert. Þá er spurning hvort rétt sé í ríkara mæli að fá erlenda sérfræðinga til að dæma þá innlendu.

Þá vil ég óska stúlkunni og hennar fjölskyldu til hamingju með þennan sigur. Málsmeðferðin og niðurstaða Hæstaréttar er gerð að engu og er það sigur þó svo bæturnar séu ekkert upp í það heilsutjón sem hlaust af læknamistökunum.


mbl.is Mannréttindadómstóllinn úrskurðar íslenskri stúlku bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband