Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Sorp, samgöngur og skemmtun

Er nú lent eftir 6 daga árangursríka kynnisferð Umhverfisráðs Reykjavíkur til Seattle. Þarna fengum við sýn á borg sem hefur tekið ákvörðun um að minnka þjónustu við einkabílinn þar sem litið sé svo á að samhengi sé á milli aukinnar þjónustu við einkabíla og minni lífsgæða.

Ákveðið hefur verið að koma á móts við fólk á ýmsan hátt s.s. með samgöngustyrkjum þannig að það komist á milli staða.

Seattle var fyrst borga í USA sem ákvað að skuldbinda sig KYOTO samkomulaginu “To be part of the solution” eins og sagt var. Borgarstjórinn hefur með sínu frumkvæði fengið um 400 aðrar borgir til að taka á sig þessar skuldbindingar þó svo ríkið hafi ekki verið tilbúið til að skuldbinda sig Kyoto. Þarna er ein af mörgum stjörnum til Seattle!

Þetta hefur leitt til mikillar hugarfarsbreytingar meðal borgarbúa og  sjálfbær þróun er greinilega höfð að leiðarljósi í öllum ákvörðunum borgaryfirvalda hvort sem þær snúa að sorpmálum, innkaupum, samgöngum og byggingum húsa.

 Neita losun ef vitlaust er flokkað

Almenningur í Seattle er gert skylt að flokka allan úrgang í fjóra flokka; það sem fer til urðunnar, í endurvinnslu, gler og lífrænan úrgang. Borgin sér um losun og þarf fólk einungis að greiða fyrir urðunartunnurnar þar sem markaðurinn fyrir endurvinnanlegan úrgang greiðir fyrir þau verðmæti sem fara í tunnur fólksins. Hefur þessi markaður verið að eflast á undanförnum árum og því ætti borgin að geta tekið þetta upp án gjalda á borgarbúa. Átak var gert í að fræða borgarbúa um flokkun og mikilvægi hennar og fékk fólk vissan aðlögunartíma. Í dag er svo komið að ef það sést endurvinnanlegur úrgangur í urðunarsorpi þá er ekki losað fyrr en fólk hefur farið gegn um sorpið og flokkað á viðeigandi hátt, enda orðið ólöglegt að henda endurnýtanlegum hlutum. Stjarna til Seattle!

 Bílastæðin stýritæki

Í Seattle sem Reykjavík þykir fólki afskaplega gott að keyra um á sínum einkabíl. Á undaförnum áratugum hafa verið reist mikil umferðarmannvirki, en um leið og þau eru tekin í gagnið yfirfyllast þau og við taka umferðarteppur. Til að anna eftirspurn þyrftu hraðbrautir í kringum borgina að vera 22 akreinar og er nú komin sameiginlegur vilji um að staldra við. Til að fólk sé í raun tilbúið að skilja bílinn eftir heima þegar farið er til vinnu og/eða skóla hefur reynst best að tengja bílinn við kostnaðarvitund fólks og er það best gert með bílastæðagjöldum. Hefur stefnan um mikinn bílastæðakostnað sýnt sig í að breyta hegðun fólks. Fyrirtæki með fleiri en 100 starfsmenn er skylt að gera samgönguáætlun fyrir sitt starfsfólk og beita aðgerðum til að ná fram markmiðum sínum. Flest fyrirtæki rukka fyrir bílastæði og því meira eftir því hve farþegar eru færri. Fram kom að engin háskóli í allri USA hefði ókeypis bílastæði. Stjarna! Þá greiða fyrirræki þ.á.m. Seattleborg fyrir strætókort starfsmanna sinna en bjóða upp á niðurgreidd bílastæði 2 daga í mánuði. Bílastæðin verða sérlega dýr þegar fólk leggur lengur en 4 tíma þar sem stefnan er að sem fæstir komi á bíl til vinnu. Varla þarf að taka fram að tekið er tilllit til fatlaðra og er það til mikillar eftirbreytni hvernig ýmis aðgengismál eru t.d. er blindraletur allsstaðar í opinberu rými.

 Skipulag byggðar

Þétting byggðar er einn mikilvægasti þátturinn í betri samgöngum og blönduð byggð þar sem atvinna og íbúðahúsnæði eru í nánd hvort við annað. Í svæðisskipulagi King County, sem er héraðið sem Seattleborg er hluti af, hefur verið skilgreind mörk milli borgar og sveitar. Öll uppbygging á að vera innan þessarra marka til að koma í veg fyrir frekari útþenslu byggðar. Ekki er verið að þjóna eftirspurn markaðarins fyrir einbýli í borg og er það réttlætt með hagrænum, heilsufarslegum og umhverfislegum rökum.

Þessi stefna sem leitt hefur til endurbyggingar eldri svæða í nálægð við miðborg hefur sýnt sig í mun líflegri miðborgarsvæðum en áður hafa þekkst í borginni. Svæðin eru mörg enda er borgin skipt upp í mörg hverfi “urban villages” sem hafa sín sérkenni.

 Skemmtilegheit

Ég ætla ekki að uppljóstra hér hversu skemmtilegt við höfðum það í umhverfisráði á kvöldin heldur fjalla aðeins um garðmenninguna. Ég var spennt að heimsækja þá sem sjá um garðanna þar sem ég er starfshópi sem á að koma með hugmyndir að endurhönnun Miklatúns. Unnið er eftir þeirri hugmyndafræði að garðarnir eigi að vera þægilegir og skemmtilegir “comfortable and fun”. Lögð er áhersla á afþreyingarþáttinn sem dregur fólk að svæðunum. Fengnir eru samstarfsaðilar um viðburði, markaði, íþróttir og skemmtanir. Þá er komið þráðlaust netsamband í alla garða. Enn ein stjarnan! Meira um þetta þegar Miklatúnshópurinn kemur loks saman.

 

Það stendur eftir að borgaryfirvöld í Seattle eru óhrædd við að beita forsjárhyggju í stað þess að láta markaðinn ráða, enda sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi. Þau eru óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir og ljóst að við getum margt lært af þeirra verkum. Vonast ég til að samstaða náist í Umhverfisráði Reykjavíkurborgar um erfið mál sem þarf að taka á hér í okkar samfélagi því lítið gerist þegar pólitísk átök eru þyrluð upp vegna stundarhagsmuna í stað þess að standa saman með umhverfisvernd að leiaðrljósi.


Samráð og grænar áherslur

Laugardalurinn er stundum nefndur lungu Reykvíkurborgar. Dalurinn er einstök perla sem ekki bara Laugardalsbúar njóta, heldur er litið á hann sem sameign reykvíkinga og þjóðarinnar. Þvottalaugarnar, Grasagarðurinn, íþróttamannvirkin og Fjölskyldu og húsdýragarðurinn er eitthvað sem allir vilja standa vörð um og það á einnig við um opin græn svæði.  

Í nokkur misseri hefur verið vilji til þess hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum að stækka sig til suðurs upp að Suðurlandsbraut og bjóða upp á frekari afþreyingu fyrir fjölskyldufólk. Þetta hefur verið skoðað innan ÍTR og stjórn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hefur verið í samstarfi við fjárfesta um möguleika í þessu sambandi. Í lok síðasta kjörtímabils var skipaður stýrihópur til að vinna áfram að þessari þróun, en með það að markmiði að standa vörð um sérstöðu Laugardalsins sem útivistarsvæðis og að gæta þess við þróun svæðisins að mannvirki falli vel að umhverfinu.

Á fundi borgarráðs í morgun lá fyrir eftirfarandi tillaga. "Borgarráð samþykkir að stýrihópur um þróun og uppbyggingu í Laugardal verði lagður niður og stjórn íþrótta- og tómstundaráðs falin verkefni hans. "Að tillögu minni var samþykktinni breytt þannig að samráð væri tryggt við Íbúasamtök Laugardals og aðra hagsmunaaðila og gætt sérstöðu Laugardalsins sem græns útivistarsvæðis. Samstaða var um málið og niðurstaðan varð: Borgarráð felur ÍTR, í samstarfi við umhverfisráð og skipulagsráð, að taka við verkefni stýrihóps um þróun og uppbyggingu í Laugardal um þróun og uppbyggingu í Laugardal enda þarf að gæta að sérstöðu Laugardalsins sem græns útivistarsvæðið og tryggja að öll þróun og skipulag falli vel að umhverfinu.  Jafnframt verði haft samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu, m.a. með samráði við Íbúasamtök Laugardals.


Ölmusuaðstoð Íslands

Á truno.blog.is er grein sem hefst með orðunum: "Mikið voru þær ánægjulegar fréttirnar í gær að 3.5 tonni af útrunninni matvöru hafi verið fargað hjá Sorpu undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Fólk sem við öll þekkjum, fólk sem hefur dregist aftur úr fjöldanum á undanförnum árum, hefur að mati fyrirtækja og hjálparsamtaka á borð við Fjölskylduhjálp Íslands mátt nærast á útrunninni matvöru. Þetta viðhorf og slík aðstoð gerir ekkert annað en að auka enn frekar á fátækt fólks, enda byggir það ekki upp sjálfstraustið að láta sig hafa það sem engum öðrum er bjóðandi."

Greinin sem er eftir mig fjallar ekki síður um ölmusuhugsunarhátt ríkisstjórnarinnar og hvet ég fólk til að fara á truno.blog.is til að lesa restina.

 


Verður ókeypis í strætó?

Umhverfisráð samþykkti í gær ýmsar aðgerðir til að sporna gegn svifryki m.a að “Kannað verði með Strætó bs. hvort unnt sé að vera með tilboð eða sérstök afsláttarverð í strætisvögnum þegar mengunarútlit er slæmt.”Við fulltrúar Samfylkingarinnar vildum fá frekari skýringar (sjá bókun hér að neðan) enda liggur í frestun tillaga okkar um 100 kr. gjald í mars þegar svifryk er mest skv. fyrri mælingum umhverfissviðs. Nú bíðum við eftir viðbrögðum Strætó bs. sem fékk tillöguna til umsagnar og eins hvaða tillögur koma fram í þeirri aðgerðaáætlun sem samþykkt var.  Samstaða?Umhverfisráð samþykkti í gær eftirfarandi aðgerðir til að sporna við frekari svifryksmengun. Raunar gleymir formaður umhverfisráðs þegar hann talar um algjöra samstöðu í þessu máli, að annar fulltrúi sjálfstæðisflokksins, Glúmur Björnsson sat hjá við afgreiðsluna eins og sjá má í opinberri fundargerð umhverfisráðs.  Aðgerðirnar sem samþykktar voru:
  • Viðræður verði hafnar við lögreglu höfuðborgarsvæðisins um tímabundna lækkun hámarkshraða á stofnbrautum þegar veðurfarslegar aðstæður og raunmælingar gefa til kynna að svifryk muni aukast í borginni.
  • Athugun á kostum þess og göllum að taka upp gjaldtöku eða aðrar takmarkanir á notkun nagladekkja, í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög.
  • Haldið verði áfram að rykbinda umferðaræðar borgarinnar þegar ástæða þykir.
  • Sett verði skilyrði í útboð borgarinnar vegna framkvæmda á hennar vegum varðandi frágang framkvæmda- og byggingasvæða.  Þetta mætti gera með þvotti á dekkjum vörubíla frá framkvæmdasvæðinu og rykbindingu lausra efna á svæðinu.
  • Sett verði skilyrði um lágmörkun rykmyndunnar í starfsleyfi um niðurrif húsa.
  • Haldið verður áfram með upplýsingamiðlun til borgarbúa um svifryk og hvernig hægt er að draga úr svifryksmengun.
  • Athugað verði, í samstarfi við Umferðarstofu, með styttingu leyfistíma nagladekkja.
  • Framkvæmdasvið kanni möguleika þess að nota slitsterkari efni til gatnagerðar á helstu umferðaræðum borgarinnar.
 Bókun Samfylkingarinnar “Fulltrúar Samfylkingarinnar í Umhverfisráði lýsa ánægju með tillögur Umhverfisráðs um aðgerðir til að sporna gegn svifryki í borginni.  Í skýrslu sérfræðinga Umhverfissviðs kemur m.a. fram “að besta leiðin til að minnka svifryk varanlega er að draga úr bílaumferð með breyttum ferðamáta, sérstaklega þegar líkur eru á mikilli svifryksmengun. “  Í ljósi þessa ítrekum við að flýtt verði afgreiðslu á tillögu Samfylkingarinnar um að gerð verði tilraun með eitt fargjald kr. 100 í Strætó.  Þeirri tillögu er ætlað að hvetja borgarbúa til að nota strætó nú í mars þegar svifryksmengun er mest og því mikilvægt að hún fái afgreiðslu sem fyrst.  Það er von fulltrúa Samfylkingarinnar að fulltrúar borgarinnar í stjórn Strætó bs.óski eftir fundi um málið í stjórn Strætó bs. hið fyrsta.“ 

Hvaða pólitík skiptir máli?

Þar kom að því að Morgunblaðið tæki úrdrátt út bloggi mínu á bls. 8, en það gerðist í sunnudagsblaðinu í dag. En þegar mér hlotnast þessi heiður, þá er ég að skrifa örstuttan persónulegan pistil, til að láta blogglesendur mína vita að ekki sé von á miklu frá mér þessa helgina. Hvað liggur að baki þessu undarlega vali, veit ég ekki. Hugsanlega er verið að ala á sundrungu á vinstivængnum þar sem vitnað er til þess að við hjónin erum í sitt hvorum flokknum. Ég vona þó í framtíðinni að Morgunblaðið sjái ástæðu til að vitna í mína pólitísku pistla t.d. um strætó, málefni fatlaðra eða önnur velferðarmál.

Best að upplýsa bloggvini mína um að helgin á Úlfljótsvatni var yndirleg. Potturinn var heitur og góður þannig að öll gigt er þolanlegri og vöðvar og andlegt ástand afslappað. Í vikunni framundan eru fundir í Velferðarráði, Umhverfisráði, Borgarstjórn, Borgarráði og í a.m.k. þremur starfshópum sem ég er í. Í mér er engin kvíði, heldur tilhlökkun enda í besta formi eftir pott mínus pólitík.


Pottur mínus pólitík

Ég fer reglulega í sund og ræði þá oft um pólitík í heita pottinum eftir góðan 1000 metra sundsprett. Nú ætla ég hins vegar með karlinum mínum í sumarbústað með heitum potti og njóta helgarinnar. Ekki stendur til að ræða um pólitík, enda gæti það eyðilagt annars góða stemmingu þar sem hann er á lista vinstri grænna en ég nýlega gengin formlega í Samfylkinguna.

Ég er hins vegar farinn að hlakka til kosningabaráttunnar og mun gera mitt besta til að vekja athygli fólks á hverju það muni breyta að hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn. Það mun breyta kjörum hinna verst settu án þess að það munu skerða kjör hinna fjölmörgu sem hafa það ágætt fjárhagslega. 

Bendi lesendum á ókeypis sýningu á An Inconvenient Truth sem haldinn verður í Háskólabíói á vegum Samfylkingarinnar á sunnudag kl. 14.

En nú er að safna kröftum og mun því ekki blogga um helgina.


Afhverju ekki 0 kr ?

Frábærar viðtökur við tillögu Samfylkingarinnar í Borgarráði um að staðgreiðslugjald verði 100 kr. í mars. Kemur þó ekki á óvart að fólk spyrji - en afhverju ekki ókeypis?

Það er stefna okkar að bjóða upp á ókeypis farfjöld fyrir vissa hópa og þá t.d. á ákveðnum tímum. Útfærsla þeirra hugmynda hefur beðið í allt of langan tíma eftir rafrænu greiðslukerfi í strætó sem virðist ekki komast á koppinn þrátt fyrir að mikið fé og tími hafi farið í verkið. Nú getum við ekki bara horft lengur á aðgerðalaus og komum fram með tillögu sem okkur þykir raunhæf og ætti að nást samkomulag um í stjórn Strætó bs. Mikilvægt er að taka skref sem gæti orðið sátt um í stað þess að leggja enn einu sinni fram tillögu um ókeypis strætó sem fáir leggja hlustirnar við.

En takk fyrir viðbrögðin, frábært að heyra í bandamönnum héðan og þaðan og líka frá þeim sem töldu sig ekki eiga samleið sem annars þeim ágæta stjórnmálaflokki sem nefnist Samfylkingin.


100 kr. í strætó

Við borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lögðum til í borgarráði nú í morgun að ráðið samþykkti að beina því til stjórnar Strætó bs. að gerð verði tilraun nú í mars um að staðgreiðslugjald verði 100 kr. fyrir alla í strætó til að sporna gegn svifryksmengun.

Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfsiráðs.  Í greinargerð með tilögunni koma m.a. fram að um tilraunarverkefni væri að ræða sem hefði tvíþættan tilgang -          að draga úr svifryksmengun í mars -          að kanna hvort einfaldara staðgreiðslugjald hefur áhrif á notkun almenningssamgangna. Mars er sá mánuður ársins sem mest svifryksmengun er í borginni samkvæmt mælingum fyrri ára. Einu raunhæfu leiðirnar til að draga úr þeirri mengun er að hvetja borgarana til að fækka ferðum á einkabílnum, einkum þeim bílum sem eru á nagladekkjum og nýta sér aðra samgöngumáta s.s. að ganga, hjóla og eða taka almenningssamgöngur. Ítrekað hefur verið bent á að staðgreiðslufargjöld séu ekki nógu hentug, óalgengt sé að fólk eigi nákvæmlega 280 kr. og þetta geti hamlað notkun strætisvagna. Tillagan tekur mið af lægsta staðgreiðslufargjaldi og er nálægt greiddu meðalfargjaldi Strætó og ætti því að geta fengist samþykkt í stjórn Strætó bs.

« Fyrri síða

Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband