Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Að að leyna opinberum gögnum?

Þau gögn sem lögð eru fram á fundum velferðarráðs eru opinber gögn. Það ætti því ekki að vera harmur eins né neins að þau skuli rædd opinberlega eins og lesa má úr fréttatilkynningu Velferðarsviðs frá því í dag. Niðurstöður opinberra úttekta eins og Ríkisendurskoðunnar eru gerðar opinberar um leið og þær birtast og eru þær birtar á vef stofnunarinnar. Það er til fyrirmyndar því þannig geta fjölmiðlar orðið að eðlilegu aðhaldi. En það er ekki eðlilegt að leyna niðurstöðum í fleiri mánuði og harma það síðan að þær séu ræddar opinberlega. 

Í frétt á mbl.is segir "Velferðarsvið Reykjavíkurborgar harmar það að úttekt stofnunarinnar á stuðningsbýli á Miklubraut 18 skuli vera komin í hendur fjölmiðla, og þá atburðarrás sem hafi fylgt málinu. Þá þykir henni miður að hún hafi ekki náð að kynna úttektina fyrir velferðarráði fyrr en 14. febrúar s.l., en þetta kemur fram í tilkynningu sem velferðarsviðið sendi frá sér."


mbl.is Harma að úttekt velferðarstofnunar hafi ratað í hendur fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmum niðurstöðum leynt vegna nýrra samninga?

Á fundi velferðarráðs í dag 14. febrúar 2007 var lögð fram úttekt á stuðningsbýlinu Miklubraut 18 sem Samhjálp rekur fyrir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar með þjónustusamningi. Í niðurstöðum koma m.a. fram alvarlegar athugasemdir um aðbúnað, mat og viðveru starfsmanna. Það undarlega í málinu er að úttektin var gerð í júlí og ágúst á sl. ári og skýrslan var tilbúin í september 2006. Nú fyrst fáum við að sjá þetta, nú þegar nýbúið er að gera nýja samninga við rekstraraðilann.

Fullltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista átöldu í Velferðarráði harðlega vinnubrögð þau sem fram komu við úttektina á Miklubraut 18. Úttektin var gerð í júlí og ágúst 2006 og skýrsla um úttektina í september 2006. Alvarlegar athugasemdir eru í niðurstöðum úttektarinnar. Íbúar eru mjög ósáttir við mat og húsnæðisaðstæður og kvörtuðu undan lítilli viðveru starfsmanna og ónógu eftirliti með heimilinu. Ráðgjafar heimilismanna höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa og efuðust um að úrræðið hafi nýst notendum sínum.

Skýrslan var fyrst kynnt Velferðarráði nú í febrúar 2007 sem er algerlega óviðunandi í ljósi þess að á tímabilinu frá því skýrslan var gerð og þar til nú hefur Velferðarráð og Velferðarsvið gert nýja samninga við rekstraraðila Miklubrautar 18, nú um rekstur Gistiskýlisins. Það er ekki að undra að sá grunur fæðist að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt fram yfir nýja samninga við Samhjálp.

Þá óskuðum við fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista eftir upplýsingum um fjárveitingar til Miklubrautar 18 og að fá að sjá rekstrarreikninga stuðningsbýlisins. Verða svör við því tekin fyrir á næsta fundi ráðsins sem haldinn verður 18. febrúar.


Ofsatrú gegn fóstureyðingum

Það er sorglegt að Geir Haarde forstæðisráðherra skuli ekki átta sig á stöðu kvennanna sem voru misnotaðar kyhferðislega í Byrginu og eignuðust börn í kjölfarið. Hvort þær hefðu orðið barnahafandi hvort eð er - er ekki málið. Við megum ekki gleyma einni hliðinni á því ofbeldi sem hefur viðgengist í Byrginu eins og víða þar sem ofsatrúarfólk kemur saman. Þar var konum neitað um sjálfsagðan rétt sinn til fóstureyðingar, þó svo þær hafi verið misnotaðar kynferðislega. Konurnar sem urðu þungaðar af völdum starfsmanna Byrgisins áttu ekkert val, karlarnir boðuðu algert bann við fóstureyðingum.

Þetta gerist hér á landi en batnandi Portúgölum er best að lifa.  Ríkisstjórnin þar ætlar að heimila fóstureyðingar þó svo að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi ekki verið bindandi. En 60% þeirra sem tóku þátt vildu heimila fóstureyðingar. Til hamingju portúgalskar konur!!!


Sagði NEI við NATÓ

Hernaðarbandalagið NATÓ hefur stundað það í mörg ár að bjóða stjórnmálamönnum í “fræðslu”ferðir til höfuðstöðva NATÓ í Brussel. Nú var komið að mér og fékk ég formlegt boð um að koma með til aðal- og herstjórnarstöðvanna í lok næsta mánaðar. Sjaldan hefur mér fundist eins gott að segja nei og nú. Það var ekki þið minnsta hik þó svo ég sé ein af þeim sem á erfitt með að svara með nei-i.

NATÓ er ekki varnarbandalag eins og heiti þeirra gefur tilefni til. NATÓ er hernaðarbandalag eins og sannaðist í árásum þeirra á fyrrum Júgóslavíu. Þá hefur Bandaríkjastjórn notað NATÓ í sínum árásarstríðum bæði í Afganistan og Írak, enda er samtökunum stjórnað út frá bandaríksum hernaðarhagsmunum.

Margir stjórnmálamenn og konur hafa þegið slíkar ferðir og ætla ég ekki að dæma þá einstaklinga. En ég bendi þeim sem vilja kynna sér starfsemi NATÓ á heimasíðu þeirra frekar en að þiggja slíkt boð http://www.nato.int/.

Einnig má kynna sér öndverð sjónarmið á vefsíðu íslensku friðarsamtakanna um frið og afvopnum en hana er að finna á  http://www.fridur.is

Bláberjaterta Bjarkar

Laugardagar eru góðir en sunnudagar yfirleitt enn betri því þá getur maður dúllað sér aðeins í matargerð og bakstri. Fékk beiðni í gær um að setja inn á síðuna uppskriftir. Mun setja inn sér hólf með uppskriftum þegar ég gef mér tíma í að hanna síðuna betur. En til að byrja með sendi ég vinsælustu uppskriftina mína og raunar þá einu sem ég á á tölvutæku formi hér í vinnunni á Tjarnargötunni.

 

2 egg og

2 dl. sykur

Þeytt vel

 

4 msk. hveiti

1 tsk. lyftiduft

3 msk. kalt vatn

1 tsk. vanilludropar

Hrært varlega saman við og síðan sett út í;

1 bolli saxaðar döðlur

100 gr. hesli- eða valhnetur

100 gr. saxað suðusúkkulaði

 

Bakað í a.m.k. 26 cm. tertuformi við 175°C í um 45 mín.

 

Ofan á tertubotninn er sett u.þ.b. 5 dl af bláberjum, hvort sem þau eru fersk eða frosin og 3-4 dl. af þeyttum rjóma. Best er að láta tertuna standa í nokkra klukkutíma áður en hún er borin fram.

Tertubotninn má baka deginum áður og eins er gott að eiga þessa botna í frysti.

 

Verði ykkur að góðu.


Ferðaþjónustan ekki í takt við mannréttindastefnu

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var síðastliðið vor segir m.a. "Óheimilt er að mismuna fólki vegna fötlunar. Unnið skal markvisst að því að gera fötluðum kleift að taka virkan þátt í borgarsamfélaginu" og "Fatlaðir eigi jafnan aðgang að þjónustu og ófatlaðir".Í dag hef ég heyrt í félögum mínum úr forystu Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar sem eru ekki sáttir við nýjar reglur um samdægursþjónustu fyrir suma fatlaða í Reykjavík. Þjónustu sem mun kosta fólk 1280 kr. fyrir ferð fram og til baka og er bara fyrir þriðjung notenda þjónustunnar. Á sama er sagt frá því í fréttum að fatlaðir í hjólastólum geti nú pantað samdægurs og er látið líta svo út eins og um mikla réttarbót sé að ræða. Hið sanna er að meirihlutinn í borginni er að afnema reglu sem taka átti gildi 1. janúar sl. og veitti þeim sem rétt eiga á ferðaþjónustu fatlaðra möguleika á að panta ferðir samdægurs. Var sú regla sett á eftir samráð milli borgarinnar og hagsmunasamtaka fatlaðra sem hafa lagt ríka áherslu á að fatlaðir fái sambærilega þjónustu og aðrir geti þeir ekki nýtt sér almenna þjónustu eins og t.d. almenningssamgöngur. Var þessi regla samþykkt einróma í borgarráði í nóvember 2005 og fengu framkvæmdaraðilar, Strætó bs. og Velferðarsvið 13 mánuði til að vinna að undirbúningi þessa. Sá tími var ekki nýttur að neinu leyti og var komið í óefni sl. haust þegar það komst upp. Meirihluti borgarráðs ákveður þá að þrengja réttinn í stað þess að segja þessum embættismönnum að spýta í lófanna og hypja upp um sig buxurnar. Það er gert á kostnað fatlaðra að þessu sinni.  

Ferðaþjónusta fatlaðra mismunar hópum fatlaðra

 Í dag samþykkti meirihluti borgarráðs breytingar á reglum um ferðaþjónustu fatlaðra án samráðs við hagsmunasamtök. Fyrri samþykktir sem taka áttu gildi 1. janúar síðastliðinn, og veittu fötluðum rétt til samdægurs þjónustu voru dregnar til baka. Í stað þess var samþykkt að einungis þriðjungur notenda, það er fatlaðir í hjólastól, fái þjónustu samdægurs að hámarki 10 ferðir á mánuði frá og með 1. maí og að greitt verði aukalega 500 krónur fyrir þær ferðir. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í borgarráði mótmæltu því harðlega að fallið var frá fyrri samþykkt þar sem við teljum að núverandi tillaga sé algerlega óásættanleg. Að sjálfsögðu bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslyndra að þetta væri gott skref til að byrja með. Vissulega er væntanleg breyting til bóta, en langt í frá fullnægjandi.  Einnig gagnrýndu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunasamtök um málið eins og borgarráð óskaði sérstaklega eftir í byrjun janúar. Fulltrúum Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags var kynnt á fundi sú tillaga sem meirihlutinn samþykkti í borgarráði, en þau voru ekki höfð með í ráðum um útfærslu á þjónustunni, þó þau hafi lýst sig reiðubúin til þess. Samtökin hafa lýst yfir óánægju sinni með málið enda eiga fatlaðir rétt á að fara ferða sinna - þó ákvörðun um það að bregða sér af bæ hafi ekki verið tekin með dags fyrirvara. 

Einungis þriðjungur notenda ferðaþjónustu fatlaðra mun geta nýtt sér þessa nýjung og er hópum fatlaðra því mismunað. Þess vegna við greiddum við atkvæði gegn tillögu meirihlutans og verður málið því tekið fyrir í Borgarstjórn 20. febrúar nk. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna munu beita sér fyrir því að fyrri samþykkt borgarráðs komi að fullu til framkvæmda.


Skýr skilaboð fyrir vorið

Baráttan framundan hefur það markmið að koma ríkisstjórn aukins ójöfnuðar, stóriðjustefnu og stríðsátaka frá völdum. Samfylkingin fordæmir aðild Íslands að Íraksstríðinu og öðrum stríðum, vill fresta stóriðjuáformum og standa fyrir stórátaki til að aukan jöfnuð fólks, þannig að allir geti lifað með sæmd.  

Með því að kjósa í dag og eða á morgun til stúdentaráðs og háskólaráðs getum við háskólanemar gefið tóninn fyrir vorið. Með kosningasigri Röskvu eru líkur á að vinstrimenn muni tvíeflast í baráttunni sem framundan er og fá þann byr í seglinn sem þörf er á.

X-V í HÍ 7. og 8. febrúar og X-S þann 12. maí. Lífið verður betra!!!


Breiðavíkurstimpillinn

Nú skil ég svo miklu betur.

Þegar ég vann sem fangavörður á Skólavörðustígnum sumrin 1985, 1986 og 1987 þá höfðu sumir fangar það orð á sér að vera frá Breiðuvík. Það var stimpill sem skýrði ýmislegt, þó vissum við ekkert hvað olli því Breiðavíkurstimpillinn sagði okkur eitthvað. Þetta eitthvað var bara eitthvað óljóst, en reynsla þeirra sem unnu með föngum var að þeir sem höfðu dvalist á Breiðuvík gátu verið erfiðari en gengur og gerist. 

Á þessum sömu árum nam ég uppeldisfræði og félagsráðgjöf við HÍ. Ég hafði mikinn áhuga á æsku afbrotamanna og kynnti mér ýmsar tiltækar heimildir.  En ekki grunaði mig hversu hryllilegur aðbúnaðurinn var sem börnunum hafði verið boðið upp á.

Nú þegar ég er farinn að huga að mastersverkefni í félagsráðgjöf þá hrannast upp rannsóknarspurningarnar. Hvað gerðist? Hvaða afleiðingar hefur þetta haft? Hversu margir sem misnotaður voru af hálfu hins opinbera í Breiðavík hafa seinna fengið dóma sem gerendur í kynferðisafbrotamálum? Hversu margir eru þolendurnir í raun og veru?

Takk Kastljós! 


X - Röskva

Næstu tvo daga fara fram kosningar til stúdenta- og háskólaráðs þ.e. miðvikudaginn 7. og fimmtudaginn 8. febrúar.

Ég hvet samnemendur mína til að greiða atkvæði þar sem lítil kjörsókn dregur aflið úr réttindabaráttu stúdenta. Við megum ekki láta það gerast þegar uppbygging stúdentagarða þarf að eiga sér stað, baráttan gegn skólagjöldum á grunn og framhaldsstigi þarf aldeilis að vera beitt og eins barátta fyrir því að hægt sé að lifa af námslánum. Röskva hefur það raunar á stefnuskrá sinni að 25% námslána breytist í styrk að námi loknu.

Grundvallarhugsjón Röskvu er jafnrétti til náms. Þá er átt við jafnrétti óháð kyni, efnahag, búsetu, þjóðerni eða stöðu að öðru leyti, og berst Röskva fyrir því með öflugum hætti að allir geti stundað gott háskólanám við sitt hæfi. Ítarleg málefnaskrá Röskvu er á vef samtakanna http://roskva.hi.is/

Við vitum að hagsmunabarátta stúdenta skiptir máli. Röskva hefur sannað það frá stofnun árið 1988 að samtökin láta málefni stúdenta og fjölskyldna þeirra sig varða. Röskva hefur haldið uppi báráttunni fyrir jafnrétti til náms.


X - Röskva

Björk einn af stofnendum Röskvu árið 1988.  



« Fyrri síða

Höfundur

Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

borgarfulltrúi, félagsráðgjafi og áhugakona um samfélagið.

bjork@reykjavik.is 

sími 862-1302

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband